Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Ganga í blíðviðrinu

Þá er þessi dagur að líða undir lok og ég með. Ég fór í skólann í dag og eftir heiðarlega tilraun til að skrifa niður allt sem kom útfyrir varir kennaranna sit ég uppi með glósur sem ég nenni aldrei að lesa og sinaskeiðabólgu í vísifingri hægri handar. Þegar ég kom svo heim úr skólanum fékk ég þá brilliant hugmynd að ég og Sólrún ættum að skella okkur uppá Rauðavatn og fara í lausagöngu með hundana. Þegar við mættum á svæðið tók á móti okkur labrador. Mér til ómældrar ánægju, eða þannig, sat eigandi hans inní vel upphituðum jeppa og skeitti ekkert um að fjarlægja hundinn svo hann myndi ekki valda okkur ónæði, sem hann gerði og vel það. Fróði byrjaði nottla strax að rífa sig og ég sneri mig næstum úr hálslið þegar ég reyndi að grípa í hnakkadrambið á honum þar sem hann stóð á afturloppunum í aftursætinu og hvæsti á hann "NEI." Þegar við komum okkur loks útúr bílnum tók við fótum okkar kalt slabb og svell þar á milli. Við örkuðum áfram, Sólrún í Puma skóm, göngustíginn og eigendalausi labradorinn elti okkur spölkorn, en sneri sem betur fer við að lokum til síns duglausa eiganda. Fróði er nú í strangri innkallsþjálfun og var því með 20 metra spotta áfastan við hálsólina sína. Þar sem aðstæður voru sem verst verður á kosið gekk æfingin vægast sagt herfilega, og Fróði þverneitaði að taka þátt í þessari vitleysu, enda jörðin alltof blaut til að setjast á hana! Ég og Sólrún tókum fyrstu skynsamlegu ákvörðun dagsins á þeim tímapunkti og snerum við. Á leiðinni aftur að bílnum ákváðu Nala og Fróði að smá eltingaleikur milli trjánna væri við hæfi og á meðan fengum ég og Sólrún það verkefni að losa spottann hans Fróða úr þeim trjám sem hann flækti hann í, eins og sést á meðfylgjandi myndum.

Fróði og Nala 018

Fróði og Nala 019

Þótt ótúlegt megi virðast komumst við heim í heilu lagi, fyrir utan dofna putta og tær. Það sem eftir lifði kvölds lá ég í sófanum með teppi yfir mér og nartaði í súkkulaðirúsinur með góða guðfræðiskruddu sem félagsskap.


Nóg að gera...

Jæja, loksins að maður nennir að skrifa eitthvað.

Það er ýmislegt búið að ganga á hjá mér núna, skólinn er byrjaður, fyristi YD KFUK fundurinn er í dag svoleiðis ég þarf að undirbúa hann. Ég hugsa að allur Hallormsstaðarskógur hafi verið hogginn til að skaffa blöð í allar bækurnar sem þarf að lesa í Guðfræðinni. Ég er rétt búin að lesa einn kafla í einni bók og hryllir við hversu lág prósenta þessar örfáu blaðsíður eru af því sem ég ætlaði að lesa um helgina. En þetta er mjög áhugavert efni og ég vona ég geti sokkið mér ofan í þetta.

Í dag fer ég með Fróða aftur í Einkatíma hjá Ástu Dóru. Búrþjálfunin hefur gengið vonum framar og litli kallinn minn farinn að geta verið einn heima, í smá tíma í senn. Í dag verður gerð tilraun til að útskýra fyrir honum að orðið "komdu" þýðir ekki "Run for your life"

Jæja, þá er það kafli 2...


Hundalíf

Enn einn dagurinn sem hófst á því að Fróði vakti mig með gelti. Hann hafði greinilega heyrt í Nölu fyrir utan dyrnar og vildi ólmur komast út. Klósettpappírinn er af skornum skammti þessa dagana, enda er Nala dugleg að auka við notagildi hans. Í dag meig hún í nýja bælið sitt, Sólrúnu til ómældrar ánægju. Ég hef ákveðið að vera iðjuleysingi í dag, enda nær engin verkefni sem bíða mín, allavega engin sem ég nenni að takast á við í dag... fyrir utan að sjálfsögðu hundapössun. Játning dagsins er að Fróði svaf uppí hjá mér í nótt þrátt fyrir skýr fyrirmæli Ástu Dóru í Gallerí Voff. Ég skil bara ekki til hvers að eiga svona mjúkan og loðinn hitapoka ef ekki til að ylja manni um tærnar á næturna. 

Skólinn byrjar eftir helgi, sá raunveruleiki á enn eftir að hellast yfir mig. Spurning að fara að dusta rykið af hjólinu og heilanum í leiðinni. Ætlunin er að sjálfsögðu að hjóla HÍ og spara bensínpeninga svo ég geti notað þá í einhverja vitleysu í staðinn. Jæja, þessi skrif eru aðeins of mikil athafnasemi fyrir iðjuleysingjadaginn minn, held ég verði að fara hætta þess og gera ekki neitt, áður en þetta fer að reyna á mig.


Fróði og Nala

Fróði og Nala

Hérna eru þau saman þessar elskur... eru þau ekki bara sætust?

Það er búið að vera svaka stuð á heimilinu núna enda eru þau gjörsamlega óþreytandi í leik. Fyrir ykkur sem ekki vitið er Nala vinstra megin og Fróði hægra megin.

 

Í búri

Nú stöndum við Sólrún í ströngu að búrvenja þessar litlu rúslur. Þau eiga sitt búrið hver, en það var greinilega peningasóun þar sem þeim líkar best að kúra saman inni í einuInLove


Er eiginlega bara að skrifa eitthvað til að fylla upp í eyðuna hérna...

Þetta er í annað sinn sem ég byrja að blogga, síðast skrifaði ég af svo mikilli nákvæmni um hverja mínútu dags míns þegar honum lauk að jafnvel dyggustu vinir hættu að nenna að lesa þetta allt saman og sneru sér frekar að skólabókunum. En ekki örvænta, ég sé ekki framá svo mikinn frítíma framundan að ég hafi tíma eða orku í slíka skriffinsku.

Það hefur nú ýmislegt drifið á daga mína undanfarið, en helst ber að nefna hvolpinn Nölu sem ákveðið var að taka inní heimilishaldið hér. Hún er 4 mánaða blanda af Langhundi, BC og íslenskum. Alger Nala og voða blíð og góð, hún og Fróði (Tíbet Spaniel hundurinn minn) eru gjörsamlega óaðskiljanlegInLove Annars er ég að far að byrja í Guðfræðinni á þriðjudaginn. Er eiginlega ekki búin að pæla neitt voðalega mikið í því og veit hreinlega ekki hvort ég á að hlakka til eða kvíða fyrir.

Anyways... Kannski nenni ég að blogga eitthvað meira á morgun, en læt þetta duga í bili.


Höfundur

Helga Kolbeinsdóttir
Helga Kolbeinsdóttir
Fátækur námsmaður sem dreymir um einbýlishús fyllt af hundum og bókahillum...

Bloggvinir

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Fróði í bælinu sínu
  • Hausmynd
  • Fróði og Nala 019
  • Fróði og Nala 018
  • Gaman í blíðviðinu

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband